ÁRNI ÞÓR OG ALLIR HINIR

Árni Þór Sigurðsson, alþingismaður, fulltrúi vinstrimanna og bókstaflega einn af þeim sem hve mestrar hylli njóta hjá flokkseigendafélagi VG, er einn af þeim sem seldu bréf á nákvæmlega réttasta augnablikinu. Og þetta gerði okkar ágæti vinstrimaður – líklega með öreiga allra þjóða sér við hlið. Hann hagnaðist um helling af peningum og svo situr hann bara áfram sem fulltrúi vinstrimanna á Alþingi Íslendinga.

  Árni hafði á þessum tíma aðgang að upplýsingum sem flestum viðskiptavinum banka og sparisjóða var ekki leyft að skoða.

  Þessi maður er ekkert annað en framsóknarmaður í felulitum vinstrimanns. Hann stökk fram einsog lifandi haugsuga þegar gróðavon var í sukkinu í kringum sparisjóðina.

  Árni Þór Sigurðsson er einn af þeim mönnum sem ættu ekki að hika við að skammast sín. Hann á að segja af sér þingmennsku. Og það væri eiginlega við hæfi að fólk neyddi formann VG til að tjá sig um þetta mál.

  Kannski er réttast að nota hér fleyg orð manns sem þekktur er fyrir margt annað en heiðarlegustu vinnubrögð veraldarsögunnar: „SVONA GERIR MAÐUR EKKI“.


,,Gvuð er ekki að hlusta á þig"

Þetta er stórskemmtileg frétt. Í ljós hefur semsagt komið að Jakob Frímann, formaður Félags tónskálda og textahöfunda, skósveinn og grúppía útrásarvíkinga er einn af þeim seku. Jakob á heiðurinn að stofnun hins svonefnda Hugverkasjóðs og hann er sá sem lofaði Glitni, flaggaði FL-fána og hann er sá sem mærði Björgólf Guðmundsson á svo eftirminnilegan hátt að orðið milljarðamærð fékk að líta dagsins ljós. Jakob montaði sig bókstaflega af því opinberlaga að hann væri sá sem fékk Jón Ásgeir til liðs við hugverkasjóðinn.

  Já, og ég varaði við áföllunum öllum. Ég skrifaði grein um þann hroða sem í boði var. Og þar eð ég benti Bubba og ýmsum öðrum á vítið sem varast bæri, sendi Bubbi sjálfur mér eftirfarandi í tölvupósti:,,Kristján Hreinsson Gvuð er ekki að hlusta á þig." (Hver ætli hafi fært goðinu þennan fróðleik?)

Þetta er allt alveg stórkostlega fyndið: Hrunið er þá Hugverkasjóði Jakobs Frímanns að kenna. Kemur þetta ekki örugglega fram í skýrslunni góðu?


mbl.is David Bowie kennt um kreppuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

KVÓTAKÓNGAR HÓTA


 

Menn hafa lengi gefið sér það að til séu þeir sem kallast kvótaeigendur. Þarna er verið að tala um sægreifa og kvótakónga – fólk sem ríkisvaldið rétti kvótann hér í eina tíð.

  Eftir að framsal veiðiheimilda var leyft og menn veðsettu kvóta, sem í raun er eign þjóðarinnar, þá fyrst varð vitleysan að vitfirringu. Og bullið hefur getið af sér vanskapnað sem útgerðin reynir að fegra en þeir sem eitthvað hugsa vita að aldrei verður annað en óskapnaður. Kvótakerfið hefur sannað fánýti sitt og orð Hannesar, grillkonungs, um að hið íslenska kvótakerfi ætti að verða útflutningsvara, er okkur jafn mikils virði og útrás hins óvirka fjármagns. Staðan er glötuð – útgerð sem er veðsett útfyrir allan þjófabálk er útgerð sem má fara á hausinn.

  Helmingaskiptaveldið hélt í það einsog heilagan boðskap að okkur bæri að ofvernda útgerðina. En í dag – þegar menn vilja snúa vörn í sókn, þá hóta útgerðarmenn og leyfa sér þá ókurteisi að draga flotann að landi ef stjórnvöld ætla að voga sér að hrófla við auðlindinni sem er þjóðareign.

  Gerum okkur grein fyrir því að mikill meirihluti þjóðarinnar lítur á kvótakerfið sem alvarlegt slys. Svefngenglar fengu að gefa vinum sínum peninga og þeir nýttu svefngönguna til hins ýtrasta.

  Sá ágæti dillibossi sjálfstæðismanna, Sigurður Kári Kristjánsson, sagði eitt sinn á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins: „Vilji Sjálfstæðisflokkurinn halda yfirráðum sínum yfir sjávarútvegsauðlindinni þá felur það í sér að Sjálfstæðisflokkurinn vill standa utan Evrópusambandsins.“

  Auðvitað lítur íhaldið svo á að það eigi kvótann. Mogginn segir okkur að þá fari þjóðarskútan fyrst á kaf ef við tökum kvótann af kvótakóngunum. En ég segi ykkur: -Þarna lýgur Mogginn – og ekki í fyrsta skipti.

  Ef við tökum kvótann af útgerðinni þá getum við skapað hér réttlæti í þeim byggðum landsins sem kvótabraskarar hafa nánast lagt í eyði.

 

Sægreifar með valdi víst

vilja landsmenn hræða,

já, útgerðin hún um það snýst

að eignast, þiggja og græða.


ELTINGALEIKUR ÓLAFS F.

 


Núna ætlar Ólafur F. Magnússon að sýna þjóðinni hvar Davíð keypti ölið. Ólafur ætlar að fletta ofanaf öllum spillingarmálum íhaldsins og hann ætlar að láta helmingaskiptaveldið svara til saka.

  Ég vona svo sannarlega að Ólafi F. Magnússyni takist með ráðum og dáð að sanna það fyrir borgarbúum að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafi staðið fyrir svikum, sukki og svínaríi á meðan þessir tveir flokkar hafa haldið um stjórnartauma í Reykjavík.

  Að vísu verður ekki sagt með góðri samvisku að Ólafur F. sé akkúrat hreinræktaðasti engillinn sem til starfans gat gengið. Hann átti svo stórkostlega spillingarspretti á þeim örstutta tíma sem hann var borgarstjóri, að það hálfa hefði verið meira en nóg. En gefum honum tækifæri til að hreinsa til. Og ef eitthvað er að marka orð Ólafs þá eru Hanna Birna og allt hennar fólk hreinræktaðir glæpamenn – fólk sem þegið hefur mútur hjá eigendum banka svo liðka mætti fyrir lóðabraski, skipulagsslysum og framkvæmdagleði í þágu peningamanna.

  Það væri kannski réttast hjá Ólafi F. að spyrða sjálfstæðismenn og framsóknarmenn í eitt þegar spillingu og sukk ber á góma. Nafn Óskars Bergssonar kemur ósjálfrátt upp. En hér er ég að tala um frægan borgarfulltrúa Framsóknar, mann sem sýndi íhaldinu blíðu og fékk síðan að lúta í lægra haldi fyrir óþekktum einstaklingi þegar kom að því að velja menn á lista fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

  Ólafur F. sakar borgarstjóra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, um bruðl, sukk og svínarí. Ásakanir um glæpsamleg athæfi hafa ekki farið eins hátt og maður hefði talið rétt. Vissulega hefur Ólafur eitthvað til síns máls en hann skaut sig eiginlega í báða fætur þegar hann reyndi að yrkja um óréttlæti það sem Hanna Birna hefur stjórnað.

  Ég var svo heppinn að fylgjast með fundi borgarstjórnar þennan dag og þótti mér undirleikur gamla, góða Villa til prýði. En eftir að Ólafur F. lauk máli sínu þá datt mér strax í hug:

 

Hægri sinnað heilabú

Hönnu Birnu skildi

að vottorð Ólafs virðist nú

vera að falla úr gildi.

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband