KVÓTAKÓNGAR HÓTA


 

Menn hafa lengi gefið sér það að til séu þeir sem kallast kvótaeigendur. Þarna er verið að tala um sægreifa og kvótakónga – fólk sem ríkisvaldið rétti kvótann hér í eina tíð.

  Eftir að framsal veiðiheimilda var leyft og menn veðsettu kvóta, sem í raun er eign þjóðarinnar, þá fyrst varð vitleysan að vitfirringu. Og bullið hefur getið af sér vanskapnað sem útgerðin reynir að fegra en þeir sem eitthvað hugsa vita að aldrei verður annað en óskapnaður. Kvótakerfið hefur sannað fánýti sitt og orð Hannesar, grillkonungs, um að hið íslenska kvótakerfi ætti að verða útflutningsvara, er okkur jafn mikils virði og útrás hins óvirka fjármagns. Staðan er glötuð – útgerð sem er veðsett útfyrir allan þjófabálk er útgerð sem má fara á hausinn.

  Helmingaskiptaveldið hélt í það einsog heilagan boðskap að okkur bæri að ofvernda útgerðina. En í dag – þegar menn vilja snúa vörn í sókn, þá hóta útgerðarmenn og leyfa sér þá ókurteisi að draga flotann að landi ef stjórnvöld ætla að voga sér að hrófla við auðlindinni sem er þjóðareign.

  Gerum okkur grein fyrir því að mikill meirihluti þjóðarinnar lítur á kvótakerfið sem alvarlegt slys. Svefngenglar fengu að gefa vinum sínum peninga og þeir nýttu svefngönguna til hins ýtrasta.

  Sá ágæti dillibossi sjálfstæðismanna, Sigurður Kári Kristjánsson, sagði eitt sinn á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins: „Vilji Sjálfstæðisflokkurinn halda yfirráðum sínum yfir sjávarútvegsauðlindinni þá felur það í sér að Sjálfstæðisflokkurinn vill standa utan Evrópusambandsins.“

  Auðvitað lítur íhaldið svo á að það eigi kvótann. Mogginn segir okkur að þá fari þjóðarskútan fyrst á kaf ef við tökum kvótann af kvótakóngunum. En ég segi ykkur: -Þarna lýgur Mogginn – og ekki í fyrsta skipti.

  Ef við tökum kvótann af útgerðinni þá getum við skapað hér réttlæti í þeim byggðum landsins sem kvótabraskarar hafa nánast lagt í eyði.

 

Sægreifar með valdi víst

vilja landsmenn hræða,

já, útgerðin hún um það snýst

að eignast, þiggja og græða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband